Kvennabarátta á margt sammerkt með jafnréttisbaráttu annarra hópa. Konur glíma við margþætta mismunun enda er gefið að helmingur mannkyns er fjölbreyttur hópur. En kvennabarátta hefur sína sérstöðu. Guðmundur Hálfdánarson (2005) hefur lýst því að í baráttunni fyrir útvíkkun á kosningarétti mátti sjá þann rökstuðning fyrir því ójafnrétti sem vinnumenn máttu þola að hafa þá ekki full borgaraleg réttindi og kjörgengi, að vinnumaðurinn íslenski átti að sætta sig við tímabundið ófrelsi í þeirri vissu að hann yrði síðar sjálfstæður bóndi. Guðmundur bendir á að þessi réttlæting mismunarins átti illa við konur og útilokun þeirra frá kosningarétti, því hvernig áttu þær að vinna sig frá kynferði sínu. Mismunun í garð kvenna og útilokun þeirra var því réttlætt með því að hún væri byggð á náttúrulegum forsendum.Vegferð kvennabaráttunnar frá útilokun til jafnréttis er vörðuð mörgum merkum áföngum en baráttunni fyrir sjálfræði kvenna er ekki lokið. Við sem búum í ríku og friðsælu landi eins og Íslandi búum við töluverð forréttindi. En verkefnið á að undirstrika að meira að segja á Íslandi, sem hefur verið í topp sæti yfir lönd þar sem jafnrétti kynjanna stendur hvað best, þá þrífst enn misrétti og enn er útilokun kvenna frá fullri þátttöku og stjórnun samfélagsins réttlætt með vísun í náttúru og eðli kvenna sem er þá andstæð eðli karlmanna.
Fjöldahreyfingar kvenna hafa barist fyrir jafnrétti og virðingu kvenna í meira en 100 ár og hefur sú barátta verið háð á mörgum sviðum: í skólakerfinu, á vinnumarkaði, á sjónvarpsskjánum, í heimi íþróttanna, á alþingi, inn á heimilunum og eiginlega öllum kimum samfélagsins. Kvennafrídagurinn 1975 var merkisdagur þar sem 90% íslenskra kvenna lögðu niður störf þennan dag og þjóðfélagið lamaðist. Herdís Helgadóttir (1996) lýsir því að konur höfðu fengið nóg af valdaleysi og mismunun og vildu sýna fólki þá ósýnilegu vinnu sem konur unnu. Kvennabaráttan á Íslandi hefur haldist í hendur við baráttu kvenna víða um heim. Íslenskar konur hafa sótt sér fyrirmyndir utan úr heimi og fengið hugmyndir til dæmis frá Súffragettum í Bretlandi í upphafi 20. aldar og frá femínistum í Bandaríkjunum um 1970.
Jafnréttisbaráttan er enn í fullu fjöri og tekur sífellt á sig nýjar myndir með nýjum baráttuaðferðum. Æfingin miðar að því að skoða sögulega áfanga í íslenskri kvennabaráttu með þeim augum að enn er verk óunnið. Markmiðið er að þjálfa getu til aðgerða og sýna að réttindi og þjónusta sem við höfum í dag eru tilkomin vegna aðgerða fólks sem lét sig málið varða. Heimurinn er verkefni í mótun, málverk sem enn er verið að mála og það borgar sig að reyna að hafa áhrif á útkomuna.
Lykilhugtak: Jafnrétti kynjanna (e. gender equality)
Kringumstæður þar sem konur og karlar njóta sömu réttinda og tækifæra þannig að hegðun, væntingar, óskir og þarfir kvenna og karla eru jafnmikils metnar. Jafnrétti kynjanna þýðir að kynin séu jafn sjáanleg í samfélaginu, jafn valdamikil og taki þátt í opinberu og einkalífi í jöfnum hlutföllum. Samkvæmt íslenskum lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008, á að gilda jafnrétti á Íslandi. Markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum samfélagssviðum. (Úr orðabók Jafnréttisstofu).
Heimildir
Guðmundur Hálfdánarson. (2005). Kosningaréttur kvenna og afmörkun borgararéttar: umræður um þáttöku og útilokun í íslenskum stjórnmálum. Í Auður Styrkársdóttir og Kristín Ástgeirsdóttir (ritstjórar), Kosningaréttur kvenna 90 ára: erindi frá málþingi 20. maí 2005 (bls. 22–42). Reykjavík: Kvennasögusafns Íslands: Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum.
Herdís Helgadóttir. (1996). Vaknaðu kona: barátta rauðsokka frá þeirra eigin sjónarhóli. Reykjavík: Skjaldborg.