Sögubækur og námsbækur hafa verið gagnrýndar fyrir að fjalla mest um það sem virðulegir karlar voru að gera. Það hefur lítið verið fjallað um þá sem höfðu ekki mikil völd svo sem börn, fátæka vinnumenn og konur. Námsbækur miðla hugmyndum og það er mikilvægt að skoða námsefni á gagnrýninn hátt og skoða í hvaða stöðu lesandi er settur og hverju er miðlað sem normið. Það er hætt við að ákveðnir hópar verði jaðarsettir ef ekki er gætt að því sérstaklega að hafa alla með. Þorgerður Þorvaldsdóttir (1996), Bragi Guðmundsson (2010) og Kristín Linda Jónsdóttir (2011) hafa rýnt í sögubækur í grunn- og framhaldsskólum þar sem þau athuga hlut kvenna og það eru nokkuð sláandi niðurstöður. Hausatalning Þorgerðar á konum í sögunámsbókum frá 1996 sýndi skelfilegar niðurstöður og talning Kristínar Lindu frá 2011 sýnir að ástandið fer síst batnandi. Joan W. Scott (2006) bendir á að femínísk sögurýni hefur ekki eingöngu haft það markmið að auka þekkingu á sögu kvenna sem lítið er vitað um, heldur lýsir hún einnig femínískri sagnfræði sem gagnrýnni aðgerð sem notar fortíðina til að kippa fótum undan sannfæringu nútímans og opna þannig möguleika á annarri framtíð.
Æfingin þjálfar gagnrýna hugsun sem byggist á samræðu og því að hugsa með öðrum. Þess konar gagnrýnin hugsun gerir ekki kröfu um hlutlægni, kalt mat eða það að forðast gildishlaðin hugtök.
Þetta er ritunarverkefni og setur nemendur í hlutverk rannsakenda. Þau skoða heim sem ekki er mikið vitað um. Nemendur eiga að beita athyglisgáfunni til að skoða gamlar ljósmyndir og spyrja spurninga og skrifa hjá sér athugasemdir og koma með tilgátur og nota til þess greiningarlykil sem hannaður er af Library of Congress. Í þessari æfingu eru nemendur að nota innsæið og þjálfa sig í að skoða smáatriði og ræða efni myndarinnar við félaga. Meginþáttur verkefnisins er að skoða karla, konur og börn á ljósmyndunum. Nemendur eiga að setja upp kynjagleraugu og spyrja: Hvað getum við lært um kynhlutverk þess tíma?
Lykilhugtak: Kynjagleraugu
Skemmtilegt hugtak sem er notað um fólk eða af fólki sem hefur komið auga á að kynin búa við ólíkar aðstæður. Það er talað um að setja upp kynjagleraugun til að leiðrétta kynblinduna eða laga þá sjónskekkju á stöðu kynjanna sem var fyrir. Oft er erfitt að taka þessi gleraugu niður því ef fólk hefur komið auga á misrétti á einu sviði er erfitt að loka augunum fyrir því á öðrum sviðum. (Úr orðabók Jafnréttisstofu)
Heimildir
Bragi Guðmundsson. (2010). Nýjar Íslandssögur fyrir miðstig grunnskóla. Ráðstefnurit Netlu – Menntakvika 2010 Reykjavík:Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Kristín Linda Jónsdóttir. (2011). Rannsókn á hlutdeild kynjanna í námsefni í sögu á miðstigi grunnskóla. Akureyri: Jafnréttisstofa.
Library Of Congress (e.d.). Primary Source Analysis Tool.
Scott. Joan W. (2006). Feminism‘s history. í Sue, Morgan (ritstjóri). The feminist history reader (bls. 387-398). Routledge, London & New York.
Þorgerður Hrönn Þorvaldsdóttir. (1996). Hvað er svona merkilegt við það að vera karlmaður?: Athugun á hlut kvenna í kennslubókum í sögu fyrir grunn- og framhaldsskóla. Saga, 34, 273-305.