Á Íslandi og hinum Norðurlöndunum er vinnumarkaður mjög kynjaskiptur sem skekkir töluvert þá mynd sem við höfum af þessum löndum sem helstu veldi jafnréttis. Æfingin miðar að því að nemendur skoði sitt daglega líf í samhengi við samfélag sem hefur bæði kynjaskipt atvinnulíf og kynjaða verkaskiptingu á heimilum. Nemendur spyrja gagnrýnna spurninga eins og: er ég að þjálfa mig til að verða sjálfbjarga í mikilvægum verkum? Nemendur geti þannig þroskað með sér þá hugmynd að hefðir og venjur í uppeldi barna eru ekki hafðar yfir vafa né óumbreytanlegar. Það er ekki meiningin með þessu verkefni að gagnrýna störf uppalenda, eða auka á vanmáttartilfinningu foreldra með því að senda börnin heim uppfull af ásökunum um að þau séu ekki að fá rétta þjálfun heima fyrir. Hugmyndin með þessu verkefni er að nemendur taki ábyrgð á eigin lífi og verði áræðnari og sæki í að fá að gera hluti sem eru ekki endilega haldið að þeim vegna þess að hefðir og staðalmyndir um kynin stýra þeim tækifærum sem strákum og stelpum standa til boða.
Í lögum um grunnskóla (nr. 91/2008) er sagt að aðalnámskrá skuli m.a. leggja áherslu á undirbúning beggja kynja jafnt undir virka þátttöku í samfélaginu, fjölskyldulífi og atvinnulífi. Aðalnámskrá grunnskóla (2011) tekur undir þessa lagagrein á tveim stöðum og leggur áherslu á að nemendur hljóti: „fræðslu um jafnréttismál þar sem m.a. sé lögð áhersla á að búa bæði kynin undir jafna þátttöku í samfélaginu, svo sem í fjölskyldu- og atvinnulífi. Áherslu ber að leggja á að drengir og stúlkur eigi sem víðtækasta og jafnasta möguleika.“ (bls. 22). Á öðrum stað er þetta endurtekið í annarri mynd: „Leggja þarf áherslu á að nám búi bæði kynin jafnt undir virka þátttöku í samfélaginu, bæði í einkalífi, fjölskyldulífi og atvinnulífi. Kynjafræði og hugtök hennar eru mikilvægur þáttur í að gera nemendur meðvitaða um stöðu kynjanna í samfélaginu.“ (bls. 38)
Æfingin þjálfar nemendur í megindlegum aðferðum við að safna upplýsingum og vinna úr könnun og nemendur eiga að æfa sig í að greina niðurstöður svo að þau geti orðið fær í að gera sína eigin könnun og spyrja spurninga sem brenna á þeim í framhaldinu. Megindlegar aðferðir hafa ekki verið taldar sérstaklega femínísk aðferðafræði en þó hafa þessar aðferðir reynst öflugt tæki til að sýna fram á kynjamismunun og hafa verið gagnlegar við að rökstyðja að enn viðgangist misrétti í samfélaginu. Það er mikilvægt að ramma æfinguna vel inn með lýðræðislegum kennsluháttum til að nemendur eignist hlutdeild í verkefninu og því hefst kennslustundin á hugstormun þar sem allir eru hvattir til að koma með sínar hugmyndir. Það er að stórum hluta unnið í hópvinnu en það hefur sýnt sig að nemendur sem tjá sig lítið í umræðum sem allur bekkurinn tekur þátt í leggja frekar til málanna í hópvinnu (Hargreaves, Linda. 2009).
Lykilhugtak: Kynskiptur vinnumarkaður (e.gender segregation in the labour market)
Kynskiptur vinnumarkaður einkennist af því að mikill meirihluti þeirra sem vinna ákveðin störf eru af öðru kyninu (80%). Góð dæmi um þetta eru hjúkrunarfræði, þar sem meirihlutinn er kvenkyns, og mannvirkjagerð, þar sem meirihlutinn er karlkyns. Vinnumarkaður á Norðurlöndum er mun kynskiptari en í öðrum löndum Evrópu. (Úr orðabók Jafnréttisstofu)
Heimildir
Mennta- og menningarmálaráðuneyti. (2012). Aðalnámskrá grunnskóla 2011: Almennur hluti. Reykjavík: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.
Hargreaves, Linda. (2009). „It’s good to talk“: improving communication between pupils and teachers and why it´s worth the effort. Í Galton, M; Steward, S; Hargreaves, L; Page, C. og Pell, T. (ritstjórar), Motivating your secondary class (bls. 80–106). London: Sage.