Femínistar hafa lengi bent á skort á fyrirmyndum fyrir konur. Hið karllæga sjónarhorn virðist ráða því hvað er tekið til umfjöllunar og hvað telst verðugt efni. Bechdel prófið og hugtakið Strympulögmálið (e. Smurfette principal) hafa vakið umræðu, því fólki blöskrar hvað konur spila veigalítið hlutverk í bíómyndum, sjónvarpsþáttum og barnaefni. Ef við skoðum fjölmiðla með kynjagleraugum sjáum við kynjakerfi þar sem hvítir karlar búa við forréttindi en konur og minnihlutahópar eru undirskipaðir. Íslenskir fræðimenn hafa staðfest að hér á landi sé skortur á kvenfyrirmyndum í fjölmiðlum því hér sé mikil kynjaskekkja t.d. í viðmælendum fréttamanna. Þegar fjallað er um konur er ofuráherlsa á útlit þeirra en minna gert úr því sem þær hafa fram að færa (Eygló Árnadóttir o.fl, 2010). Það er erfitt að rannsaka áhrifin sem þessi brenglaða umfjöllun hefur á stelpur og konur. Skortur á umfjöllun um kvenkyns íþróttahetjur hefur þó gjarnan verið tengdur við það að stelpur hætta að æfa íþróttir fyrr en strákar. Þegar áherslan er svona mikil á vöxt og útlit kvenna í fjölmiðlum þá gefur það stúlkum þau skilaboð að virði þeirra byggist mest á því hversu mjóar og fallegar þær eru. Fyrirmyndir fyrir stráka eru kannski sýnilegri og aðgengilegri en þær eru ekki alltaf uppbyggilegar.
Henry Alexander Henrysson (2013) fjallar um gagnrýna hugsun og bendir á að við séum ekki frjáls í vali okkar á þeim skilaboðum sem berast okkur úr samfélaginu. Hins vegar megi ekki einblína um of á þessar takmarkanir. Sá sem gerir sér grein fyrir þeim á mikið verk fyrir höndum þegar kemur að því að mynda sér eigin skoðun. Hann bendir á að tilfinningalífið, í víðum skilningi, mótar skoðanir okkar og við getum beitt gagnrýnni hugsun með því að nota siðferðilegt innsæi, samvisku og réttlætiskennd okkar. Markmið með þessari æfingu er einmitt að reyna að laða fram þetta innsæi nemenda og æfa gagnrýna hugsun með því að fá þau fyrst til að skoða fyrirmyndir í lífinu sem eru þeim mikilvægust, mögulega móðir eða faðir og í framhaldinu skoða fyrirmynd sem þau þekkja aðeins úr fjölmiðlum.
Lykilhugtak: Kynjakerfi (e. gender order, patriarchy)
Kynjakerfi er hugtak sem notað er til að lýsa félagslegu yfirráðakerfi þar sem karlar njóta góðs af kerfisbundinni undirskipun kvenna (Úr orðabók Jafnréttisstofu).
Heimildir
Eygló Árnadóttir, Valgerður Anna Jóhannsdóttir og Þorgerður Einarsdóttir. (2010). Konur og karlar í fjölmiðlum: Ísland í alþjóðlegri fjölmiðlavöktun. Í Helga Ólafsdóttir og Hulda Proppé (ritstjórar), Rannsóknir í félagsvísindum XI: félags- og mannvísindadeild (bls. 35–45). Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.
Henry Alexander Henrysson. (2013). Skoðanir, siðferði, samfélag: Enn um gagnrýna hugsun. Netla: veftímarit um uppeldi og menntun.