Æfingin er um staðalímyndir og fjölmiðlalæsi og tengist lífsleikni. Æfingin er þýdd og aðlöguð frá Hardy Girls – Healthy Women og er ætlað stelpuhóp og fjallar um vináttu stelpna. Það má auðveldlega aðlaga verkefnið fyrir strákahóp og ræða vináttu stráka. Það er aðeins flóknara að ræða vináttu stráka og stelpna í sjónvarpsþáttum í blönduðum hópi, þess vegna er æfingin kynjaskipt.
Æfingin felst í að skoða hvernig vinátta birtist í sjónvarpi og bera hana saman við vináttu í raunveruleikanum. Tilgangurinn er að hrista af sér neikvæðar fyrirmyndir. Það er mikilvægt fyrir kennara að leggja áherslu á að minnka samkeppni og samanburð í samskiptum stúlkna og efla uppbyggileg vinkvennasambönd. Ingibjörg Auðunsdóttir og Helga Halldórsdóttir hafa fjallað um erfið samskipti stúlkna og hafa verið með námskeið fyrir kennara til að takast á við einelti í stelpnahópi. Í meistararannsókn Helgu Halldórsdóttur (2014) kemur fram að tryggð vinkvenna og traust ásamt því að falla í hópinn er stúlkum mikilvægast. Helga styðst við erlendar rannsóknir sem sýna að félagsmótun stúlkna hafi áhrif á hvernig og hvort þær treysti hver annarri. Félagsmótun í skóla og á heimili vegur þungt þegar kemur að trausti og góðum vinskap en fjölmiðlar hafa einnig mikil áhrif en fyrirmyndir stelpna á þeim vettvangi séu ekki sérlega uppbyggilegar. Fyrirmyndir drengja eru mögulega fjölbreyttari en samskipti drengja í sjónvarpi eru ekki alltaf góð og því hafa þeir einnig gagn af því að ræða vináttu. Rannsókn Þórdísar Þórðardóttur (2012) sýndi að það borgar sig að ræða staðalímyndir um kynin sem birtast í t.d. sjónvarpsefni. Kennarar gætu þjálfað nemendur sína í að meta réttmæti staðalímynda og börn voru vel fær um að efast um viðteknar venjur ef þau fengju tækifæri til þess.
Lykilhugtak: Staðalímyndir (e. stereotypes)
Staðalímyndir eru fyrirfram ákveðnar hugmyndir um útlit og/eða eiginleika fólks sem tilheyrir ákveðnum hópi eða stétt innan samfélagsins, eins og hvernig það á að hegða sér og hvaða störf eru við hæfi þess. Sumar staðalímyndir hafa neikvæð áhrif á jafnrétti kynjanna og samkvæmt 1. gr. jafnréttislaga 10/2008 á að vinna gegn þeim. (Úr orðabók Jafnréttisstofu).
Heimildir
Hardy Girls Healthy Women. (2013). We´re in this together.
Helga Halldórsdóttir. (2014). Erfið samskipti stúlkna: leið til lausna. Óbirt M-ed-ritgerð. Háskólinn á Akureyri: Hug- og félagsvísindasvið.
Þórdís Þórðardóttir. (2012). Að læra til telpu og drengs. Kynjaðir lærdómar í leikskóla. Ráðstefnurit Netlu – Menntakvika 2012, Reykjavík: Menntavísindasvið Háskóla Íslands