Æfingin miðast við miðstig, en má aðlaga fyrir eldri nemendur. Það er gert ráð fyrir að nemendur þekki staðalímyndir en ef svo er ekki má benda á grunnverkefni Geenu Davis Institute um staðalímyndir sem miðast við 6-9 ára börn. Tilgangur æfingarinnar er að valdefla nemendur með því að gefa þeim færi á að kanna áhrif staðalmynda á þeirra líf og líta gagnrýnið á hugmyndir um kvenleika og karlmennsku. Einnig er tilgangur æfingarinnar að efla nemendur í að leyfa sér að vera öðruvísi. Æfingin á að varpa ljósi á hve óstöðugt og fljótandi kynjakerfið er.
Börn eru mjög ung farin að átta sig á ólíkum væntingum samfélagsins til klæðnaðar og hegðunar og verksviðs kynjanna. Þorgerður Þorvaldsdóttir (2000) kynjafræðingur bendir á að slík samfélagsmótun eigi sér stað allt í kringum okkur; innan fjölskyldunnar, vinahópsins, í fjölmiðlum, skólakerfinu, á vinnumarkaði og svo framvegis. Kynjamótunin sé sívirk og ein fyrsta birtingarmynd hennar sé þegar kornabörn fái bleik eða blá armbönd á fæðingardeildinni. Upp frá því móti vitundin um kyn alla framkomu og viðhorf til barnsins. Fræðimenn hafa bent á að stúlkur hafi oft meira frelsi og svigrúm til að bregða sér í ýmis hlutverk, strákastelpan eða góða stelpan eða svala stelpan, en drengjum er þrengri stakkur sniðinn því birtingarmyndir karlmennsku er fastmótaðri (Jón Ingvar Kjaran og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 2013). Rannsókn Þórdísar Þórðardóttur (2012) staðfesti mikilvægi þess að kennarar skoði staðalmyndir um kynin með börnum svo að börn þjálfist í að meta réttmæti staðalmynda sem birtist þeim t.d í barnaefni og barnabókum. Rannsóknin sýndi að leikskólabörn voru vel fær um að efast um viðteknar venjur og staðalmyndir ef þau fengu tækifæri til þess. Þöggun um þessi mál viðhéldi misrétti enda væri það lagaleg skylda kennara að fræða börn um jafnrétti.
Lykilhugtak: Kyngervi (e. gender)
Hugtak sem er notað um félagslega tilbúin hlutverk kvenna og karla. Það sem við teljum kvenlegt og karlmannlegt er lærð hegðun. Kyngervi breytist með tímanum og er mismunandi innan og milli ólíkra menningarheima. Hugmyndin um að bleikt sé kvenlegur litur en blátt sé karlmannlegur er til dæmis félagslega mótuð hugmynd. Hugmyndir okkar um kvenleika og karlmennsku á ekki rætur að rekja til líffræðilegra þátta heldur mótast merking þessara eiginleika af menningunni hverju sinni. (Úr orðabók Jafnréttisstofu).
Heimildir
Jón Ingvar Kjaran og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson (2013) „Hvað er svona merkilegt við það að vera karlmaður?“: Hinsegin karlmennska og viðhorf ungra íslenskra hinsegin karla. Í Stefanía Óskarsdóttir (ritstjóri), Þjóðarspegillinn XIV: Rannsóknir í félagsvísindum: Stjórnmálafræðideild (bls. 1-9). Reykjavík: Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands http://skemman.is/stream/get/1946/16792/39059/3/JonKjaran_STJ.pdf
Þórdís Þórðardóttir. (2012). Að læra til telpu og drengs. Kynjaðir lærdómar í leikskóla. Ráðstefnurit Netlu – Menntakvika 2012. Reykjavík: Menntavísindasvið Háskóla Íslands http://netla.hi.is/menntakvika2012/016.pdf
Þorgerður Þorvaldsdóttir. „Er í alvöru til eitthvað sem heitir eðli, hjá mannfólki og sem munur á milli kynjanna?“. Vísindavefurinn 3.11.2000. http://visindavefur.is/?id=1084