Ágæti kennari!

Það er ekki sjálfgefið að samfélagið sé eins og það er í dag. Það er stundum talað um að hlutirnir séu að þokast í rétta átt og þetta sé nú allt á góðri leið. En við erum ekki í rúllustiga og aukið jafnrétti kemur ekki af sjálfu sér. Jafnrétti eykst vegna þess það er fjöldi fólks sem er að vinna að jafnrétti á fjölmörgum vígstöðvum. Það er fólk sem sættir sig ekki við óútskýrðan launamun, lægri fjárveitingar til kveníþróttaliða eða minni virðingu fyrir því sem kallað er kvennastörf. Það sættir sig ekki við fordóma eða fyrirframgefnar hugmyndir um hvað það getur eða hverju það hefur áhuga á.

Kennsluefnið er hluti af meistaraverkefni mínu við Kennaradeild Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Leiðbeinandi minn er Berglind Rós Magnúsdóttir, Þórey Mjallhvít Heiðar- og Ómarsdóttir er myndskreytir, vefari er Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir og kann ég þeim bestu þakkir fyrir. Kvenréttindafélagi Íslands færi ég einnig mínar bestu þakkir fyrir ómetanlegt starf í þágu kvenna. Verkefnið var styrkt af framkvæmdanefnd um 100 ára kosningarétt kvenna, Menningar- og minningarsjóði kvenna og Ljósmyndasafni Reykjavíkur.

Kennarar gegna mjög mikilvægu hlutverki í jafnréttisbaráttunni og með lýðræðislegum kennsluháttum sem stuðla að gagnrýnislæsi geta þeir breytt heiminum. Ira Shor, spekingur í fræðunum um gagnrýnislæsi, lýsti því sem svo að gagnrýnin kennsla byði nemendum að íhuga nýjar leiðir í stað þess að falla hljóðlaust inn í heiminn eins og hann er í dag. Kennarar þyrftu að benda á að heimurinn er ekki greyptur í stein, hann er óklárað verkefni (Shor, 1999). Þetta eru þær hugmyndir sem liggja til grundvallar þessu kennsluefni um jafnréttisbaráttu. Ég vona að efnið muni reynast ykkur vel.

Kveðja, Þóra Þorsteinsdóttir, kennaranemi og kynjafræðingur

Um kennsluefnið

Kennsluefnið er ætlað efri bekkjum grunnskóla 5.-10. bekk. Það samanstendur af sex æfingum og einu hópverkefni og hver æfing stendur sjálfstætt og því er frjálst að velja og nýta eitt verkefni. Stök æfing gæti átt heima í námsgreinum eins og samfélagsfræði, sögu, íslensku og stærðfræði. Séu verkefnin tekin saman standa þau sem heilt kynjafræðinámskeið sem hefst á sex æfingum sem allar miða að því að æfa nemendur í að geta unnið að hópverkefni sem ber heitið „Þetta er ekki æfing“. Hópvinnuaðferðina má kynna sér í Litrófi kennsluaðferðanna (2013) undir heitinu efniskönnun í vinnuhópum. Kjarninn í hópverkefninu er að nemendur starfi saman að því að gera verkefni sem þeim finnst mikilvægt. Nemendur eiga að reyna að hafa áhrif á umhverfi sitt og beyta sjálfstætt þeim verkfærum sem æfingarnar hafa látið þeim í hendur.

Á þessum vef má einnig finna kennsluefnið í prentvænni pdf útgáfu. Þar eru kennsluáætlanir fyrir æfingarnar og hópverkefnið, með tilheyrandi hæfniviðmiðum og lýsingum á nauðsynlegum gögnum. Framkvæmd kennslustundarinnar er lýst í skrefum. Það er tillaga að námsmati og að lokum er fræðilegur rökstuðningur. Hæfniviðmiðin eru unnin upp úr hæfniviðmiðum fyrir samfélagsgreinar í Aðalnámskrá grunnskóla (2013) og sömuleiðis námsmatið sem er í bókstöfum eins og námskráin gerir ráð fyrir. Á þessum vef eru til viðbótar rafræn námsgögn sem ekki rúmast í prentvæna pdf skjalinu. Á vefnum eru tenglar að myndböndum, útprentanleg verkefni, myndir eða glærur, einnig eru tillögur að frekara efni til að skoða og tenglar á vefi með góðum upplýsingum.

Nám um jafnréttisbaráttu veitir nemendum mörg tækifæri til að taka þátt, tjái sína skoðun og þjálfa lýðræðisleg samskipti. Ef áhugi nemenda er vakinn þá haldið neistanum gangandi og sjáið hvert það leiðir ykkur. Leiðbeinið nemendum og styðjið þau í að koma á framfæri sinni sýn á heiminn. Hlustið á nemendur og virðið ólíkar skoðanir. Reynið að skapa traust í nemendahópnum og afslappaðar umræður. Það er gott að styðjast við handbókina Listin að spyrja. Þar eru mörg góð ráð t.d. ekki spyrja já og nei spurninga og gefið nemendum ráðrúm til að íhuga svarið (Ingvar Sigurgeirsson, 1998). Væntið þess að það muni koma upp álitamál, takið þeim fagnandi sem merki þess að þér hafi tekist að virkja nemendur. Tilfinningar eins og reiði eru eðlilegar þegar verið er að fjalla um misrétti. Reiði getur verið hreyfiafl sem má virkja á jákvæðan máta. Ekki eyða ágreiningi, reynið að nýta hann sem námstækifæri og skoðið þessi erfiðu málefni nánar. Styðjast má við umjöllun Ólafs Páls Jónssonar (2011) um að leysa ágreining án slagsmála. Þar vitnar Ólafur í Dewey: „Með því að taka sérhvern ásteytingarstein … inn í umhverfi rökræðu og skynsemi, þá lítum við á þá sem við eigum í ágreiningi við – jafnvel djúpstæðum ágreiningi – sem einstaklinga sem við getum lært af …“ (1998 [1939]).

Prentvæn útgáfa af kennsluefni í heild (pdf)

titill

Heimildir

Mennta- og menningarmálaráðuneyti. (2013). Aðalnámskrá grunnskóla: Almennur hluti 2011: Greinasvið 2013.Reykjavík: Mennta- og menningarmálaráðuneyti

Dewey, John. (1998 [1939]). Creative Democracy – The Task Before us. Í The Essential Dewey: Volume 1: Pragmatism, Education, Democracy (bls. 340- 343). Bloomington: Indiana University Press.

Ingvar Sigurgeirsson. (1998). Listin að spyrja: Handbók fyrir kennara. Reykjavík: Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands.

Ingvar Sigurgeirsson. (2013). Litróf kennsluaðferðanna. Reykjavík: Iðnú.

Ólafur Páll Jónsson. (2011). Að leysa ágreining án slagsmála. Í Lýðræði, réttlæti og menntun: Hugleiðingar um skilyrði mennskunnar (bls. 41-56). Reykjavík, Háskólaútgáfan.

Shor, Ira. (1999). What is critical literacy. Journal for Pedagogy, Pluralism and Practice, 1(4).